Mikael Neville Anderson hefur gert góða hluti með Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni og fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Hann segir þó að hann ætli sér að ná enn lengra og vill verða besti leikmaður deildarinnar.
„Næsta skref er að verða besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Mikael í viðtali við Fotbollskanalen. „Ég vil ekki bara vera einn af þeim bestu, heldur sá besti.“
Mikael Neville gekk til liðs við Djurgården í sumar frá AGF í Danmörku og hefur verið mikilvægur leikmaður á tímabilinu. Hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp tvö í þrettán leikjum og telur sig eiga meira inni.
„Ég held að flestir hafi séð hvers konar leikmaður ég er, bæði innan og utan vallar. En ég veit að ég get bætt mig og vona að ég geti sýnt það í lok tímabilsins og á næsta ári,“ sagði hann.
Mikael Neville bætti við að árangur liðsins væri ávallt í forgangi. „Það er ánægjulegt að fá hrós, en ég hef miklar kröfur bæði til mín og liðsins. Við eigum að vera í toppbaráttu, ekki í fimmta eða sjötta sæti,“ sagði hann.