Hinn 17 ára Viktor Bjarki Daðason átti sögulegan leik í kvöld þegar hann varð yngsti Íslendingurinn í sögunni til að spila og skora í riðla- eða deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Viktor, sem er uppalinn hjá Fram, kom inn á sem varamaður á 75. mínútu í leik FC Kaupmannahafnar gegn Borussia Dortmund og minnkaði muninn í 4:2 með skalla undir lok leiksins. Boltinn virtist stöðvast á marklínunni eftir góða tilraun Viktors, en marklínutækni staðfesti að boltinn hafði farið inn og markið gilt.
Með þessu varð Viktor, aðeins 17 ára og 113 daga gamall, yngsti Íslendingurinn sem spilar og skorar í keppninni. Hann sló þar með met Orra Steins Óskarssonar, sem var 18 ára og 57 daga gamall þegar hann lék með FC Kaupmannahöfn gegn Sevilla árið 2022. Viktor er jafnframt átjándi Íslendingurinn sem kemur við sögu í riðla- eða deildarkeppni Meistaradeildarinnar og fimmti sem nær að skora, á eftir Eiði Smára Guðjohnsen, Arnóri Sigurðssyni, Hákoni Arnari Haraldssyni og Alfreð Finnbogasyni.
Þetta var aðeins annar leikur Viktors fyrir aðallið FC Kaupmannahafnar, en hann lagði einnig upp mark í sínum fyrsta deildarleik fyrir liðið á dögunum.