Framherjinn Andri Lucas Guðjohnsen bíður enn eftir sínu fyrsta marki með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni. Hann var í byrjunarliði liðsins í 1:3-tapi gegn Sheffield United í kvöld.
Andri Lucas hefur nú leikið sex deildarleiki með Blackburn frá því hann gekk í raðir liðsins í sumar, en án þess að finna netmöskvana. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og situr í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins sjö stig eftir tíu umferðir.
Alfons Sampsted kom inn á sem varamaður á 86. mínútu hjá Birmingham City í 1:0-útisigri gegn Preston North End. Stefán Teitur Þórðarson var ónotaður varamaður hjá Preston, sem er í 10. sæti, á meðan Birmingham er í 12. sæti ensku B-deildarinnar. Willum Þór Willumsson lék ekki með Birmingham vegna meiðsla.
Þá kom Helgi Fróði Ingason inn á undir lokin í 1:0 tapi Helmond Sport gegn FC Den Bosch í hollensku B-deildinni. Helmond Sport er í 9. sæti eftir 12 umferðir.