Viktor Bjarki Daðason kom inn á í hálfleik þegar FC Kaupmannahöfn mætti Tottenham Hotspur í Meistaradeild Evrópu í Lundúnum í gærkvöldi.
Viktor Bjarki hóf leikinn á varamannabekknum ásamt Rúnari Alex Rúnarssyni en danska liðið átti erfitt uppdráttar gegn spræku heimaliði Tottenham. Lundúnaliðið náði forystu í fyrri hálfleik eftir mistök hjá FC Kaupmannahöfn og bætti við öðru marki skömmu síðar.
Þrátt fyrir að Tottenham hafi misst mann af velli snemma í seinni hálfleik tókst FC Kaupmannahöfn ekki að nýta sér liðsmuninn. Viktor Bjarki reyndi sitt til að koma nýju lífi í danska liðið eftir að hann kom inn á, en Tottenham bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik og vann sannfærandi sigur, 4:0.
Þetta var í annað sinn sem Viktor Bjarki kemur við sögu í Meistaradeildinni á leiktíðinni.
Í ensku B-deildinni var Andri Lucas Guðjohnsen á sínum stað í byrjunarliði Blackburn Rovers sem vann sinn þriðja deildarleik í röð þegar liðið hafði betur gegn Bristol City, 1:0. Andri Lucas lék fyrstu 79 mínúturnar í leiknum. Blackburn Rovers er í 18. sæti eftir þrettán umferðir.