Hefur styrkt sig andlega og er nú meðal fremstu markvarða í Evrópudeildinni

Elías Rafn hefur staðið sig mjög vel með Midtjylland og segir andlegan styrk lykilatriði í leik sínum.
Ljósmynd/Midtjylland

Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland, ræddi í ítarlegu viðtali á heimasíðu danska félagsins í gær um reynsluna af markvarðarstöðunni, ábyrgðina sem henni fylgir og þann stöðugleika sem hann hefur náð á ferlinum.

Elías segir að ákvörðunin um að verða markvörður hafi komið snemma. Hann var aðeins kornungur þegar þjálfari á Íslandi hvatti hann til að fara í markið, enda hærri en flestir jafnaldrar hans. „Ég fann strax að þetta hentaði mér,“ sagði Elías.

Foreldrar hans voru bæði landsliðsmenn í blaki og telur Elías að sú íþrótt hafi hjálpað honum í markinu. Hann hafi loks ákveðið um fjórtán ára aldur að einbeita sér að fótboltanum.

Smáatriðin skipta máli
Elías segist heillast af smáatriðum og nákvæmni í markvarðarstöðunni. „Það er gaman að verja skot, en það eru líka augnablik sem fólk tekur síður eftir, eins og þegar maður les leikinn rétt eða grípur sendingu sem annars hefði skapað hættu. Fyrir mér er það jafn mikilvægt.“

Að læra af mistökum
Elías talaði einnig um þá sérstöðu sem fylgir stöðu markvarðarins. „Þegar markvörður gerir mistök, veit það hver einasti áhorfandi. Þannig er þetta einfaldlega. Maður þarf að læra að sætta sig við það og halda áfram.“

Hann sagði nokkur atvik hafa haft mikil áhrif á sig sem leikmann, meðal annars í leikjum gegn FC Kaupmannahöfn og FCSB. „Það er mikilvægt að sýna ábyrgð og láta í ljós að maður sé meðvitaður um það sem betur má fara. Slíkt er hluti af því að vaxa í hlutverkinu.“

Andlegur styrkur mikilvægur
Elías vinnur markvisst að því að styrkja sig andlega og halda fókus þegar á móti blæs. Hann vinnur bæði með markmannsþjálfara og hugrænum þjálfara og segir slíka vinnu hafa reynst dýrmæta. „Það er ekki hægt að undirbúa sig fyllilega fyrir það hvernig það er að gera mistök á þessu stigi. Það skiptir máli að velja hvern maður hlustar á. Ég hef minn hóp fólks sem ég treysti og læt annað ekki trufla mig.“

Í sínu besta formi
Elías hefur átt frábært tímabil og er meðal fremstu markvarða í sínum keppnum. Hann hefur varið 94 prósent skota í Evrópudeildinni, sem er þriðja besta hlutfall keppninnar, og 78 prósent í dönsku úrvalsdeildinni.

„Ég er á góðum stað, bæði inni á vellinum og utan hans. Við höfum verið stöðugir og undirbúum okkur vel fyrir hvern leik.“

Midtjylland hefur aðeins tapað tveimur leikjum frá því í apríl og er í toppbaráttunni í dönsku úrvalsdeildinni þar sem liðið er í öðru sæti, rétt á eftir toppliðinu AGF.

Fyrri frétt

Tómas Bent prýddi síður dagblaðanna í Skotlandi

Næsta frétt

Viktor Bjarki lék seinni hálfleikinn í Meistaradeildinni