Viktor Bjarki kom við sögu í sigri

Viktor Bjarki lék sinn fimmta leik með aðalliði FC Kaupmannahafnar.
Ljósmynd/FC Kaupmannahöfn

Viktor Bjarki Daðason lék sinn fimmta leik með aðalliði FC Kaupmannahafnar þegar liðið vann 3:2-sigur á Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Viktor Bjarki kom inn á sem varamaður á 69. mínútu í leiknum. Hann hefur farið afar vel af stað með liðinu og skorað tvö mörk auk þess að leggja upp tvö í fyrstu leikjum sínum með aðalliðinu.

Hjá Fredericia kom Daníel Freyr Kristjánsson inn á sem varamaður á 67. mínútu og lék þar með sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu eftir að hafa jafnað sig á meiðslum. Rúnar Alex Rúnarsson var á varamannabekknum hjá FC Kaupmannahöfn.

FC Kaupmannahöfn er í 4. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 14 umferðir, en Fredericia er í næstneðsta sæti með 11 stig.

Nóel Atli Arnórsson lék allan leikinn fyrir Álaborg í 2:1-útisigri liðsins gegn Middelfart í dönsku B-deildinni fyrr í dag. Með sigrinum fór Álaborg upp í þriðja sæti deildarinnar eftir 15 umferðir.

Ólafur Dan Hjaltason lék síðasta hálftímann fyrir Aarhus Fremad í markalausu jafntefli gegn Hvidovre. Aarhus Fremad situr í 9. sæti deildarinnar.

Jóhannes Kristinn Bjarnason kom inn á sem varamaður á 79. mínútu í liði Kolding sem gerði 1:1-jafntefli við Hillerød. Kolding er í 6. sæti deildarinnar.

Fyrri frétt

Hjörtur hafði betur gegn Sverri

Næsta frétt

Ekkert gengur hjá Norrköping – Fimmta tapið í röð