Ekkert gengur upp hjá Íslendingaliðinu Norrköping þessa dagana en liðið tapaði í kvöld sínum fimmta leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni þegar það beið lægri hlut gegn Sirius, 1:2.
Ísak Andri Sigurgeirsson lék allan leikinn fyrir Norrköping, Arnór Ingvi Traustason var tekinn af velli undir lok leiks og Jónatan Guðni Arnarsson lék síðustu mínúturnar.
Norrköping er nú í 13. sæti með 29 stig, aðeins þremur stigum fyrir ofan Degerfors, sem er í fallumspilssæti og á tvo leiki eftir. Norrköping á aðeins einn leik eftir og mætir Gautaborg í lokaumferðinni um næstu helgi.
Daníel Tristan Guðjohnsen var ónotaður varamaður hjá Malmö sem gerði 1:1 jafntefli við Häcken. Arnór Sigurðsson glímir enn við meiðsli hjá Malmö, sem er í 5. sæti með 46 stig og á ekki möguleika á Evrópusæti.
Ólafur Guðmundsson og Davíð Snær Jóhannsson komu báðir inn á sem varamenn á 84. mínútu fyrir Álasund sem vann öruggan 3:0-sigur á heimavelli gegn Åsane í norsku B-deildinni.
Álasund er í 4. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir, sæti sem tryggir þátttöku í umspili um sæti í úrvalsdeildinni. Liðið hefur 51 stig, aðeins tveimur stigum minna en Kongsvinger sem situr í 2. sæti og er þar með í baráttu um beint sæti í norsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.