Þjálfarinn hrósaði Viktori – „Getur orðið okkar leynivopn“

Þjálfari FC Kaupmannahafnar telur að Viktor Bjarki geti orðið mikilvægur leikmaður fyrir liðið á komandi vikum.
Ljósmynd/FC Kaupmannahöfn

Jacob Neestrup, þjálfari FC Kaupmannahafnar, segir hinn 17 ára gamla Viktor Bjarka Daðason geta orðið mikilvægur leikmaður fyrir danska meistara­lið sitt á komandi vikum eftir frábæra byrjun í aðalliðinu.

„Við erum mjög ánægð með þá byrjun sem hann hefur átt,“ sagði Neestrup eftir 2:4-tapið gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni í gær. „Hann mun fá fleiri tækifæri og fleiri leiki til að þróast með liðinu, bæði til skemmri og lengri tíma.“

Viktor, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í leiknum gegn Dortmund og lagði upp mark í sínum fyrsta deildarleik nokkrum dögum fyrr, hefur komið sterkur inn í hópinn. Þar sem Andreas Cornelius er meiddur hefur Viktor tekið mikilvægt hlutverk sem eini náttúrulegi framherji liðsins.

„Hann hefur einstaka eiginleika í teignum og býður liðinu upp á eitthvað sem enginn annar leikmaður gerir,“ sagði Neestrup. „Ég vil ekki leggja of mikið á hann, en hann gæti orðið okkar leynivopn á lokaspretti ársins.“

Viktor hefur leikið alls 60 mínútur með aðalliði FC Kaupmannahafnar og er kominn með bæði mark og stoðsendingu á þeim stutta tíma.

Fyrri frétt

„Þetta hefur verið draumur í mörg ár“

Næsta frétt

Frá­bær tilþrif hjá Kristali – Myndband