Viktor Bjarki Daðason, 17 ára framherji FC Kaupmannahafnar, skrifaði sig í sögubækurnar í kvöld þegar hann skoraði í sínum fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu, í 4:2-tapi gegn Borussia Dortmund á Parken í Kaupmannahöfn.
Viktor kom inn á þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og minnkaði muninn undir lokin með skalla sem fór yfir marklínuna. Með markinu varð Viktor yngsti Íslendingurinn til að skora í keppninni og jafnframt þriðji yngsti leikmaður sögunnar.
Í viðtali við danska miðilinn Copenhagen Sundays sagði hann það mikla lífsreynslu og ánægju að fá að upplifa slíkt augnablik. „Þetta er stórkostleg tilfinning. Þetta er stærsta svið heims og hefur verið draumur hjá mér í mörg ár að fá að spila í Meistaradeildinni,“ sagði Viktor, sem hélt ró sinni þrátt fyrir markið. „Ég hugsaði bara um að halda leiknum áfram og reyna að skora aftur. En auðvitað var ég mjög ánægður innra með mér.“
Viktor Bjarki lék sinn fyrsta leik með aðalliði FC Kaupmannahöfn um síðustu helgi þegar hann lagði upp mark í 3:1-tapi gegn Silkeborg. Hann segist staðráðinn í að vinna sér inn fast sæti í liðinu. „Ég ætla að leggja hart að mér og sýna að ég sé tilbúinn. Ef þjálfarinn kallar á mig, þá verð ég klár,“ sagði hann að lokum.
#fcklive #championsleague #sldk
DADASON EFTER CL-MÅL I PARKEN: EN FANTASTISK FØLELSE“Det har været min drøm i så mange år at spille Champions League her,” siger målscoreren.
Islandske Viktor Dadason fik i weekenden seniordebut for F.C. København, og kvitterede ved den… pic.twitter.com/ZgqartBCFO
— Copenhagen Sundays (@CphSundays) October 21, 2025