Fiorentina, lið Alberts Guðmundssonar, hefur sagt upp þjálfaranum Stefano Pioli eftir afar slakt gengi í upphafi tímabils í ítölsku A-deildinni. Liðið er án sigurs eftir tíu umferðir og situr á botni deildarinnar með aðeins fjögur stig.
Tap gegn Lecce í Flórens um síðustu helgi var síðasta hálmstráið fyrir Pioli, en eftir leikinn mótmæltu stuðningsmenn liðsins harðlega fyrir utan heimavöllinn.
Daniele Gallopa, þjálfari úr akademíu liðsins, mun tímabundið stýra æfingum liðsins á meðan leitað er að eftirmanni.
Albert hefur skorað eitt mark og lagt upp annað í deildinni á tímabilinu, auk þess sem hann hefur verið áberandi í Sambandsdeildinni.