Sandra María Jessen hélt uppteknum hætti og skoraði mark fyrir Köln í þýsku úrvalsdeildinni í dag, þegar liðið tapaði 1:5 á útivelli gegn Bayern München.
Hún kom Köln yfir með skallamarki eftir hornspyrnu snemma leiks, en heimakonur jöfnuðu rétt fyrir leikhlé og bættu síðan við fjórum mörkum í seinni hálfleik. Glódís Perla Viggósdóttir sat allan leikinn á varamannabekknum hjá Bayern München.
Sandra María hefur átt frábært tímabil til þessa og er komin með sex mörk í öllum keppnum. Köln er með sjö stig eftir sjö umferðir, á meðan Bayern München er á toppi deildarinnar með 19 stig.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var í byrjunarliði RB Leipzig sem tapaði 5:0 fyrir Union Berlin fyrr í dag. RB Leipzig er í 11. sæti deildarinnar.
Þá lék Bergrós Ásgeirsdóttir allan leikinn fyrir Aurau sem gerði 1:1 jafntefli við Thun í svissnesku úrvalsdeildinni. Aurau er aðeins með þrjú stig og situr í næstneðsta sæti deildarinnar eftir átta umferðir.