Kristian Hlynsson, leikmaður Twente í Hollandi, mætir fyrrum félögum sínum í Ajax á morgun í fyrsta sinn frá því hann gekk til liðs við Twente í sumar. Kristian segir að leikurinn geti orðið vendipunktur í eigin frammistöðu og ætlar sér að leggja enn meira af mörkum í sóknarleik liðsins.
„Ég þarf að skora meira,“ sagði Kristian í viðtali við Voetbal International. „Ég vil byggja upp betri tengingu við samherja mína. Ég er mikill liðsmaður en vil líka skora. Vonandi fara mörkin að koma.“
Kristian og félagar hans í Twente verða í eldlínunni í hollensku úrvalsdeildinni á morgun þegar þeir taka á móti Ajax, félaginu sem Kristian yfirgaf í sumar. „Ég átti góðan tíma þar og fékk mín tækifæri, en meiðsli settu strik í reikninginn. Twente var hins vegar besta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti,“ sagði Kristian og bætti við: „Ég hlakka til leiksins og markmiðið er auðvitað að vinna Ajax.“