Ísak Snær skoraði og lagði upp

Ísak Snær lét að sér kveða með Lyngby í Danmörku.
Ljósmynd/Lyngby

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði og lagði upp mark í 3:2-tapi Lyngby gegn AaB í dönsku B-deildinni í dag.

Ísak minnkaði muninn í 2:1 með skalla eftir rúman klukkutíma leik og átti síðan stoðsendingu að öðru marki Lyngby undir lok leiks. Hann lék allan leikinn, líkt og Nóel Atli Arnórsson sem var í liði AaB.

Eftir fjórtán umferðir er Lyngby í þriðja sæti deildarinnar með 23 stig, en AaB er þremur stigum á eftir í því fimmta.

Breki Baldursson kom inn af bekknum í blálokin hjá Esbjerg sem vann 1:0 sigur á Aarhus Fremad. Ólafur Dan Hjaltason var ónotaður varamaður hjá Aarhus Fremad. Esbjerg er í 8. sæti, á meðan Aarhus Fremad er í sætinu fyrir neðan.

Adam Ingi Benediktsson og Ægir Jarl Jónasson voru í byrjunarliði AB frá Kaupmannahöfn þegar liðið vann 3:1-sigur á Brabrand í dönsku C-deildinni. Þetta var sjötti deildarsigur AB í röð undir stjórn Jóhannesar Karls Guðjónssonar.

Fyrr í dag kom Hólmbert Aron Friðjónsson inn á sem varamaður á 67. mínútu hjá Gwangju FC sem hafði betur gegn FC Anyang, 1:0, í úrvalsdeildinni í Suður-Kóreu.

Fyrri frétt

Kristian mæt­ir gömlu fé­lög­un­um – „Markmiðið er auðvitað að vinna Ajax“

Næsta frétt

Mikael með laglegt mark í stórsigri Djurgården – Myndband