Arnór Sigurðsson, leikmaður Malmö í Svíþjóð, hefur enn á ný orðið fyrir meiðslum og verður frá keppni um óákveðinn tíma. Félagið staðfesti að hann hafi orðið fyrir sinameiðslum í hné og hafið endurhæfingu undir eftirliti.
Arnór gekk til liðs við Malmö frá Blackburn í febrúar síðastliðnum en hefur ekki náð að festa sig í sessi vegna ítrekaðra meiðsla. Hann hefur misst af síðustu sjö leikjum liðsins og ekki lokið heilum leik á árinu.
Skagamaðurinn hefur leikið 13 leiki í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, en aðeins í fjórum þeirra spilað meira en tuttugu mínútur. Hann er samningsbundinn Malmö til ársins 2027 og vonast félagið til að hann nái sér fljótt á strik á ný.