Kristall skoraði í öruggum sigri

Kristall Máni var fljótur að skora fyrir Sønderjyske í öruggum sigri.
Ljósmynd/Sønderjyske

Kristall Máni Ingason og Daníel Leó Grétarsson voru báðir í byrjunarliði Sønderjyske, sem vann langþráðan 3:0-heimasigur á Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Kristall Máni kom sínum mönnum yfir með marki á 9. mínútu og lék vel þar til hann fór af velli á 77. mínútu. Þetta var hans þriðja deildarmark á leiktíðinni. Daníel Leó stóð vaktina í vörninni allan leikinn, en Rúnar Þór Sigurgeirsson er frá með slitið krossband og Daníel Freyr Kristjánsson gat ekki leikið með Fredericia vegna meiðsla. Sønderjyske er nú í 7. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 umferðir.

Í Tyrklandi lék Andri Fannar Baldursson allan leikinn á miðjunni hjá Kasimpasa, sem tapaði 2:0 á útivelli gegn Eyupspor. Heimamenn voru sterkari aðilinn og sigur þeirra sanngjarn. Kasimpasa er með 9 stig eftir níu umferðir.

Í Svíþjóð þurfti Kolbeinn Þórðarson að sitja hjá í 1:2-tapi Gautaborgar gegn toppliði Mjällby, þar sem hann var í leikbanni vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Gautaborg er í harðri baráttu um Evrópusæti þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

Að lokum lék Aron Einar Gunnarsson fyrri hálfleikinn með Al-Gharafa í 0:4-tapi gegn Al-Ahli í Meistaradeild Asíu. Al-Gharafa er með þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Fyrri frétt

Stefán skoraði og tók óléttufagnið – Myndband

Næsta frétt

Logi aftur í liði umferðarinnar í Tyrklandi