Fyrsti sigurinn loksins í hús hjá Genoa

Mikael Egill og samherjar hans í Genoa unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu.
Ljósmynd/genovatoday.it

Mikael Egill Ellertsson og samherjar hans í Genoa unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu í ítölsku A-deildinni þegar liðið lagði Sassuolo að velli, 2:1, á útivelli í kvöld.

Mikael Egill kom inn á sem varamaður á 69. mínútu leiksins. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Genoa eftir að Patrick Vieira lét af störfum sem þjálfari liðsins. Með sigrinum lyfti Genoa sér af botni deildarinnar og hefur nú sex stig eftir tíu umferðir. Fiorentina, lið Alberts Guðmundssonar, situr hins vegar á botninum með fjögur stig.

Mikael Egill hefur komið við sögu í öllum tíu deildarleikjum Genoa á tímabilinu og verið í byrjunarliði í átta þeirra.

Elías Rafn Ólafsson varði markið hjá Midtjylland þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við AGF í toppslag í dönsku úrvalsdeildinni. Midtjylland er í öðru sæti deildarinnar með 29 stig, aðeins tveimur stigum á eftir AGF.

Aron Einar Gunnarsson kom inn á sem varamaður á 71. mínútu þegar lið hans Al-Gharafa tapaði fyrir sterku liði Al Hilal, 3:1, í Meistaradeild Asíu. Al-Gharafa hefur leikið fjóra leiki í sínum riðli og er með þrjú stig.

Þá var Davíð Kristján Ólafsson ónotaður varamaður hjá Cracovia sem gerði markalaust jafntefli við Zagłębie Lubin í pólsku úrvalsdeildinni. Cracovia er í 4. sæti deildarinnar eftir þrettán en Davíð Kristján hefur ekki komið við sögu í síðustu sjö leikjum liðsins.

Fyrri frétt

Emilía frábær í sigri Leipzig – Ásdís lagði upp

Næsta frétt

Stoðsendingarnar hjá Viðari – Myndband