Emilía Kiær Ásgeirsdóttir lék stórt hlutverk þegar RB Leipzig vann 4:2-sigur á Freiburg í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Emilía kom Leipzig yfir eftir um tíu mínútna leik með sínu fyrsta marki á tímabilinu og lagði síðar upp þriðja mark liðsins í öruggum sigri. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í vörn Freiburg.
Leipzig er með 10 stig eftir átta umferðir og situr í 10. sæti deildarinnar.
Í Portúgal vann Braga 2:0-sigur á Rio Ave í portúgölsku úrvalsdeildinni. Ásdís Karen Halldórsdóttir lagði upp fyrra mark leiksins áður en hún fór af velli eftir rúmlega klukkutíma leik en Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Braga. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm umferðir.
