Hákon Arnar Haraldsson fékk mikið lof í frönskum fjölmiðlum eftir að hafa átt stóran þátt í 2:0-útisigri Lille á Nantes í frönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Hákon Arnar kom Lille yfir snemma leiks með nákvæmu skoti í fjærhornið eftir undirbúning frá Olivier Giroud. Hákon var mjög áberandi í sóknarleiknum, átti skot í stöng og reyndist stöðug ógn fyrir varnarmenn Nantes.
Sjá einnig: Hákon fljótur að skora í góðum sigri – Myndband
Franski miðillinn MadeinFoot valdi Hákon mann leiksins og taldi hann hafa verið einn af lykilmönnum í sóknarleik Lille. Þar var tekið fram að hann hafi sýnt framúrskarandi tækni og leikskilning, verið virkur og skapandi í leik sínum og stöðugt ógnað vörn Nantes.
Le Petit Lillois gaf Hákoni 7,5 í einkunn og lýsti honum sem áberandi leikmanni í frjálsu hlutverki á miðjunni, þar sem hann stjórnaði leik liðsins af miklu öryggi og hafi verið nálægt því að bæta við öðru marki þegar hann átti skot í stöng. Að sama skapi hrósaði GFFN honum fyrir líflegan leik og gott samspil við samherja, einkum Olivier Giroud, og gaf honum 7 í einkunn.
Hákon Arnar hefur nú skorað þrjú mörk á tímabilinu og er markahæstur hjá Lille ásamt Hamza Igamane. Sigurinn lyfti liðinu upp í sjötta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með 14 stig eftir átta umferðir.