Hákon Arnar Haraldsson skoraði fyrsta mark leiksins þegar Lille vann 2:0-útisigur á Nantes í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta var þriðja mark Hákons á tímabilinu og hann er nú markahæsti leikmaður liðsins ásamt Hamza Igamane.
Markið hjá Hákoni kom á áttundu mínútu eftir góða sókn Lille. Olivier Giroud fékk boltann inn í teignum og lagði hann til hliðar á Hákon sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í hægra neðra hornið. Lille stjórnaði leiknum frá upphafi til enda og Hamza Igamane gulltryggði sigurinn með marki undir lok leiksins.
Lille er komið upp í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig eftir átta umferðir og sigurinn kærkominn eftir þrjá leiki án sigurs í deildinni. Markið hjá Hákoni í leiknum má sjá hér að neðan.
Albert Guðmundsson og liðsfélagar hans í Fiorentina áttu erfiðan dag á útivelli gegn AC Milan og töpuðu 2:1 í ítölsku A-deildinni. Albert byrjaði á varamannabekknum en kom inn á 70. mínútu. Fiorentina komst yfir með marki frá Robin Gosens en Rafael Leao skoraði tvö mörk fyrir Milan, það seinna úr vítaspyrnu á 86. mínútu.
Fiorentina er án sigurs eftir sjö umferðir og situr í fallsæti með aðeins þrjú stig, á meðan AC Milan fór með sigrinum á topp deildarinnar.