Fátt um fína drætti

Það gekk misjafnlega hjá íslenskum leikmönnum.
Ljósmynd/Al Dhafra

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var Jóhann Berg Guðmundsson í byrjunarliði Al-Dhafra sem tapaði 0:2 á útivelli gegn Al-Sharjah í dag. Al-Dhafra er með níu stig eftir sex umferðir og hefur verið í leit að stöðugleika framan af tímabili.

Í Katar var Aron Einar Gunnarsson ekki í leikmannahópi Al-Gharafa sem féll úr leik í bikarkeppninni eftir óvænt 0:1-tap á heimavelli gegn Al-Sailiya, sem er neðst í deildinni þar í landi.

Elías Már Ómarsson lék allan leikinn með Meizhou Hakka í kínversku úrvalsdeildinni þar sem liðið beið lægri hlut, 3:1. Meizhou Hakka er aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Í Svíþjóð lék María Catharina Ólafsdóttir Grós allan leikinn með Linköping sem tapaði 0:2 gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni. Linköping er í mikilli fallbaráttu og hefur einungis 15 stig eftir 23 umferðir.

Að lokum kom Helgi Fróði Ingason inn á sem varamaður undir blálokin í 4:2-sigri Helmond Sport gegn varaliði AZ Alkmaar í hollensku B-deildinni. Helmond Sport er í 8. sæti eftir 11 umferðir.

Fyrri frétt

Viktor Bjarki lagði upp í frumraun sinni með FC Kaupmannahöfn – Myndband