Eggert Aron skoraði tvö í ör­ugg­um sigri

Eggert Aron átti stór­leik í liði Brann og skoraði tvö mörk.
Ljósmynd/Brann

Eggert Aron Guðmundsson átti stórleik þegar Brann vann Haugesund, 4:1, í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Eggert Aron lék allan leikinn á miðjunni og kom Brann í 2:0 snemma í seinni hálfleik með góðu skoti innan teigs. Hann bætti síðan við fjórða marki liðsins á 71. mínútu með laglegri afgreiðslu eftir vel útfærða sókn. Hægt er að sjá mörkin hjá Eggerti á vef TV2 í Noregi; fyrra markið og seinna markið.

Haugesund minnkaði muninn undir lok leiks, en Brann var mun sterkari aðilinn og fagnaði öruggum sigri.

Brann, sem Freyr Alexandersson stýrir, er í þriðja sæti deildarinnar með 49 stig, sex stigum á eftir toppliði Bodø/Glimt þegar fimm umferðir eru eftir. Sævar Atli Magnússon er frá vegna meiðsla og leikur ekki meira á tímabilinu.

Sveinn Aron Guðjohnsen lék síðasta stundarfjórðunginn fyrir Sarpsborg þegar liðið tapaði 5:2 fyrir Bodø/Glimt. Sarpsborg er í 10. sæti með 32 stig.

Í norsku B-deildinni skoraði Davíð Snær Jóhannsson fyrir Álasund í 6:0-stórsigri liðsins gegn Mjøndalen. Davíð Snær hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á 67. mínútu og skoraði markið sitt rúmum tíu mínútum síðar. Mark hans má sjá hér. Álasund er harðri baráttu um að komast upp í norsku úrvalsdeildina og er í 4. sæti með 44 stig.

Daníel Tristan Guðjohnsen kom inn á undir lok leiks þegar Malmö vann Norrköping, 2:0, í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru í byrjunarliði Norrköping og Jónatan Guðni Arnarsson lék síðustu mínúturnar fyrir liðið. Malmö er í þriðja sæti deildarinnar, á meðan Norrköping er í 12. sæti, þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fyrr í dag lék Guðlaugur Victor Pálsson allan leikinn fyrir Horsens sem vann 3:0-útisigur á Middelfart í dönsku B-deildinni. Horsens er í þriðja sæti deildarinnar.

Fyrri frétt

Katla tryggði Fiorentina dramatískan sigur – Myndband

Næsta frétt

Tómas Bent og félagar á toppnum í Skotlandi