Orri Steinn Óskarsson, leikmaður spænska úrvalsdeildarliðsins Real Sociedad, hefur aftur orðið fyrir meiðslum og verður frá keppni næstu vikurnar. Rannsóknir hjá læknateymi félagsins staðfestu bakslag í vöðvameiðslum á vinstri læri og verður bataferlið metið á næstu dögum.
Orri Steinn hafði nýverið snúið aftur til æfinga eftir langt hlé og stefnt var að því að hann yrði leikfær um helgina í leik gegn Celta Vigo. Þjálfari Real Sociedad, Sergio Francisco, sagðist afar miður sín yfir tíðindunum og sagði að þetta væri einkum sárt fyrir Orra sjálfan, sem hafði lagt mikið á sig í endurhæfingunni.
Ekki liggur fyrir hversu lengi Orri verður frá, en áætlað er að hann verði ekki leikfær fyrr en eftir fjórar vikur. Meiðslin eru ekki einungis áfall fyrir Real Sociedad, heldur einnig fyrir íslenska A-landsliðið sem á mikilvæga leiki fyrir höndum í undankeppni HM 2026 gegn Aserbaídsjan 13. nóvember og Úkraínu þann 16. nóvember.