Aron Einar Gunnarsson lék síðustu mínúturnar í 2:0 sigri Al-Gharafa gegn Al-Sailiya í katörsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Aron Einar kom inn á sem varamaður á 81. mínútu hjá Al-Gharafa sem hefur nú safnað níu stigum og er í þriðja sæti eftir fjórar umferðir.
Gísli Gottskálk Þórðarson kom við sögu á afmælisdegi sínum þegar lið hans Lech Poznan tapaði fyrir Zagłębie Lubin, 2:1, í pólsku úrvalsdeildinni. Gísli byrjaði á bekknum en kom inn á 64. mínútu leiksins. Lech Poznan er í 6. sæti eftir sex umferðir.
Oliver Stefánsson var í byrjunarliði GKS Tychy sem tapaði 2:1 fyrir Polonia Bytom í pólsku B-deildinni. Tychy er í 11. sæti eftir níu umferðir.
Daníel Leó Grétarsson var í byrjunarliðinu hjá Sønderjyske sem tapaði 1:0 fyrir Randers í dönsku úrvalsdeildinni. Daníel lék fyrstu 75 mínúturnar í leiknum en Rúnar Þór Sigurgeirsson kom inn á fyrir hann og lék sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið. Sønderjyske er í 6. sæti eftir átta umferðir.
Ólafur Dan Hjaltason lék síðustu mínúturnar með Aarhus Fremad sem hrósaði 3:1-útisigri gegn B 93 í dönsku B-deildinni. Aarhus Fremad er í 6. sæti.
Adam Ingi Benediktsson og Ægir Jarl Jónasson voru báðir í byrjunarliði AB frá Kaupmannahöfn í slæmu tapi liðsins gegn Roskilde, 4:1, í dönsku C-deildinni. Jóhannes Karl Guðjónsson stýrir AB sem er í 5. sæti.
Danijel Dejan Djuric lék síðustu mínúturnar fyrir NK Istra 1961 í 2:1 tapi gegn Slaven í króatísku úrvalsdeildinni. Logi Hrafn Róbertsson var ónotaður varamaður hjá NK Istra, sem er í 6. sæti.
Sandra og Sara léku báðar í tapi
Sandra María Jessen lék sinn annan leik fyrir Köln í þýsku úrvalsdeildinni. Hún hóf leikinn gegn Freiburg en var tekin af velli á 83. mínútu. Freiburg vann 1:0 og er Köln án stiga eftir tvær umferðir.
Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn á sem varamaður á 69. mínútu í fyrsta leik Al-Qadsiah í úrvalsdeildinni í Sádi-Arabíu. Liðið tapaði 4:3 fyrir Al-Hilal.