Andri Lucas Guðjohnsen, leikmaður Blackburn Rovers, er í liði umferðarinnar í ensku B-deildinni hjá tölfræðivefnum WhoScored, eftir góða frammistöðu í 2:1-sigri á Southampton um helgina.
Andri Lucas lék allan leikinn í fremstu víglínu og skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið þegar hann tryggði Blackburn Rovers sigur með marki á 86. mínútu. Hann var á réttum stað í teignum þegar boltinn barst til hans og setti hann í netið af stuttu færi.
Markið var jafnframt fyrsta deildarmark Andra á leiktíðinni og kom í hans sjöunda leik fyrir Blackburn. Sigurinn var kærkominn fyrir liðið sem hafði ekki unnið síðan um miðjan september og lyftist upp úr fallsæti.