Aron Einar Gunnarsson og liðsfélagar hans í Al-Gharafa tylltu sér á toppinn í úrvalsdeildinni í Katar með 3:1-útisigri á Al-Ahli í dag.
Aron Einar byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á í upphafi seinni hálfleiks og hjálpaði liðinu að snúa leiknum sér í vil. Öll þrjú mörk Al-Gharafa komu í seinni hálfleik þar sem liðið tryggði sér sannfærandi sigur.
Með sigrinum er Al-Gharafa komið á topp deildarinnar með 16 stig eftir sjö umferðir, en Aron hefur tekið þátt í öllum deildarleikjum liðsins það sem af er tímabili.
Brynjólfur Darri Willumsson lék síðustu tíu mínúturnar með liði sínu Groningen sem vann 2:1-útisigur á Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni. Brynjólfur Darri, sem er að ná sér af meiðslum, hóf tímabilið stórvel með því að skora fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. Groningen er í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig.
Bjarki Steinn Bjarkason kom inn af bekknum eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Venezia tapaði 3:2 gegn Carrarese í ítölsku B-deildinni. Venezia er í 7. sæti með 13 stig.
Í norsku B-deildinni kom Davíð Snær Jóhannsson inn á sem varamaður á 68. mínútu hjá Álasundi þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Moss. Ólafur Guðmundsson var ónotaður varamaður hjá Álasundi, en liðið er í 4. sæti, sem er umspilssæti, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.