Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt fyrsta mark fyrir Blackburn Rovers þegar liðið vann 2:1-heimasigur á Southampton í ensku B-deildinni í dag.
Andri var í byrjunarliði Blackburn og lék allan leikinn í fremstu víglínu. Hann skoraði sigurmark leiksins á 86. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að boltinn barst til hans í teignum og tryggði liði sínu þar með þrjú dýrmæt stig.
Markið var fyrsta deildarmark Andra á leiktíðinni og kom í hans sjöunda leik fyrir Blackburn. Sigurinn var kærkominn fyrir liðið sem hafði ekki unnið síðan um miðjan september og lyftist nú upp úr fallsæti með 10 stig eftir 11 umferðir.
Alfons Sampsted var ónotaður varamaður hjá Birmingham City sem tapaði 1:0 fyrir Bristol City. Willum Þór Willumsson er enn frá vegna meiðsla. Birmingham er í 15. sæti með 15 stig.
Þá kom Jason Daði Svanþórsson inn á sem varamaður á 80. mínútu þegar lið hans Grimsby Town tapaði 3:2 fyrir Crewe Alexandra í ensku D-deildinni. Grimsby er í 6. sæti með 24 stig eftir 14 umferðir.