Viktor Bjarki Daðason hefur framlengt samning sinn við danska stórliðið FC Kaupmannahöfn. Félagið greindi frá því í gær að samningurinn væri til lengri tíma, en ekki var tilkynnt hversu langur hann er.
Viktor, sem er 17 ára gamall, gekk til liðs við FC Kaupmannahöfn frá uppeldisfélagi sínu Fram fyrir rúmu ári síðan og hefur síðan tekið miklum framförum. Hann hóf leik með U17 ára liði félagsins en hefur nú fest sig í sessi hjá U19 ára liðinu, auk þess sem hann hefur æft með aðalliðinu og verið í leikmannahópi á tímabilinu.
„Ég er í skýjunum með að hafa framlengt samning minn,“ sagði Viktor við heimasíðu FC Kaupmannahafnar. „Það sýnir að ég er á réttri leið og á góðum stað til að halda áfram að þróa leik minn. Markmið mitt er að vinna mér sæti í aðalliðinu, verða lykilmaður í dönsku úrvalsdeildinni og skora mörk á Parken.“
Mikkel Köhler, yfirmaður leikmannamála hjá FC Kaupmannahöfn, segir Viktor hafa tekið miklum framförum frá því hann kom frá Fram. „Viktor hefur þróað leik sinn mikið á þessum tíma. Hann hefur staðið sig afar vel með U19 ára liðinu og fengið að spreyta sig með aðalliðinu. Við teljum hann hafa alla burði til að verða mikilvægur leikmaður hjá félaginu á næstu árum,“ sagði Köhler.