Tómas Óli Kristjánsson steig sín fyrstu skref í dönsku úrvalsdeildinni í gær þegar hann lék í fyrsta sinn með aðalliði AGF.
Tómas, sem er 17 ára gamall og uppalinn hjá Stjörnunni, kom inn á undir lok leiks, á 88. mínútu, í 3:1-sigri AGF á Silkeborg. Með sigrinum heldur AGF efsta sæti deildarinnar með 26 stig eftir ellefu leiki, fjórum stigum á undan Midtjylland þar sem Elías Rafn Ólafsson er á mála.
Tómas hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í unglingaliðum AGF og var nýverið færður upp í aðalliðið eftir frábæra frammistöðu.