Viðar Ari Jónsson átti stóran þátt í góðum sigri HamKam þegar liðið lagði Sandefjord, 3:1, í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Viðar Ari lagði upp fyrsta mark leiksins snemma í fyrri hálfleik og átti einnig stoðsendinguna að þriðja marki HamKam snemma í þeim seinni. Hann lék í rúman klukkutíma, en Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði Sandefjord og lék fyrstu 66 mínúturnar.
HamKam hefur tekið miklum framförum á síðustu vikum, unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og er nú sex stigum fyrir ofan fallsæti með 34 stig. Sandefjord er í 7. sæti með 39 stig.
Brann, undir stjórn Freys Alexanderssonar, tapaði óvænt fyrir Bryne, 2:1. Eggert Aron Guðmundsson lék allan leikinn fyrir Brann sem situr í þriðja sæti deildarinnar með 52 stig, níu stigum á eftir Bodø/Glimt sem er í öðru sæti.
Í Svíþjóð skildu Djurgården og Gautaborg jöfn, 0:0, í Íslendingaslag þar sem Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Djurgården og Kolbeinn Þórðarson í liði Gautaborgar. Með úrslitunum fjarlægðust bæði lið Evrópusæti, en þau sitja nú í 5. og 6. sæti deildarinnar og tvö stig skilja liðin að.
Júlíus Magnússon var í byrjunarliði Elfsborg sem tapaði 0:3 gegn AIK. Júlíus lék í 84 mínútur og Ari Sigurpálsson kom inn á sem varamaður hjá Elfsborg á 75. mínútu. Elfsborg er í 8. sæti.