Tómas framlengdi við AZ Alkmaar

Tómas Johannessen framlengdi samning sinn við hollenska liðið AZ Alkmaar til ársins 2029.
Ljósmynd/AZ Alkmaar

Tómas Johannessen, 18 ára sóknartengiliður, framlengdi á dögunum samning sinn við hollenska liðið AZ Alkmaar til ársins 2029.

Tómas gekk til liðs við AZ Alkmaar frá Gróttu fyrir tveimur árum og hefur leikið með yngri liðum félagsins síðan. Hann er nú hluti af leikmannahópi varaliðsins, Jong AZ, sem keppir í næstefstu deild í Hollandi.

„Það er frábært að framlengja um fjögur ár hjá félagi þar sem mér líður vel og finn að ég er að bæta mig í hverri viku,“ sagði Tómas í viðtali við heimasíðu AZ. „Markmiðið mitt er að verða fastur maður í liði Jong AZ og vinna mér inn tækifæri með aðalliðinu á næstu árum.“

Paul Brandenburg, yfirþjálfari unglingaliða AZ, hrósaði Tómasi fyrir aðlögun og framfarir. „Tómas hefur þróast frábærlega síðan hann kom til félagsins. Hann hefur mikinn leikskilning, góða tækni og rétt hugarfar. Við teljum hann mjög efnilegan leikmann sem getur á komandi árum unnið sér sæti í aðalliði AZ Alkmaar,“ sagði Brandenburg.

Tómas á að baki 27 leiki með yngri landsliðum Íslands og hefur í þeim skorað sex mörk.

Fyrri frétt

Tómas Bent og félagar á toppnum í Skotlandi

Næsta frétt

Stuðningsmenn Brann sungu nafnið hans Eggerts – Myndband