Ragnheiður Þórunn lagði upp í stórsigri

Ragnheiður Þórunn lagði upp mark í stórsigri í Hollandi.
Ljósmynd/Zwolle

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir, 17 ára leikmaður PEC Zwolle, kom inn á í upphafi seinni hálfleiks og átti stoðsendingu í 4:0-sigri liðsins á NAC Breda í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

Zwolle hafði góða stjórn á leiknum frá upphafi og er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex umferðir.

Amanda Andradóttir kom einnig inn á sem varamaður þegar Twente vann stórsigur á Den Haag, 5:0. Twente er í toppbaráttunni og deilir efsta sæti deildarinnar með Ajax, en bæði lið eru með 16 stig.

Í Svíþjóð var María Catharína Ólafsdóttir Grós í byrjunarliði Linköping sem tapaði fyrir Häcken, 4:0. María lék fyrstu 83 mínúturnar í leiknum en Linköping er í mikilli fallhættu og þarf tvo sigra í lokaleikjum tímabilsins til að eiga möguleika á að bjarga sér.

Fyrri frétt

Hörður og Hákon í sigurliðum

Næsta frétt

Sigurmark Daníels – Myndband