Logi Tómasson lék allan leikinn í vinstri bakverði þegar Samsunspor vann sannfærandi 3:0-heimasigur á Dynamo Kyiv frá Úkraínu í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Logi var að venju í byrjunarliði tyrkneska liðsins sem hefur farið frábærlega af stað í keppninni og unnið báða leiki sína til þessa, en liðið hefur ekki fengið á sig mark í þessum tveimur leikjum.
Gísli Gottskálk Þórðarson lék fyrstu 72 mínúturnar fyrir Lech Poznan sem tapaði 2:1 gegn Lincoln Red Imps FC frá Gíbraltar. Lech Poznan er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki sína í keppninni.
Guðmundur Þórarinsson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu þegar FC Noah gerði 1:1 jafntefli við Universitatea Craiova frá Rúmeníu. FC Noah hefur fengið fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum.