Elías Rafn Ólafsson var traustur í marki Midtjylland þegar liðið vann sannfærandi 3:0-útisigur á Maccabi Tel Aviv í deildarkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.
Elías var öruggur allan leikinn og varði þrjár marktilraunir frá leikmönnum heimaliðsins. Þetta var áttunda skiptið á leiktíðinni sem hann heldur markinu hreinu, en hann hefur nú leikið alls 16 leiki fyrir Midtjylland á leiktíðinni. Danska liðið hefur farið frábærlega af stað í keppninni og er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina.
Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn þegar Panathinaikos tapaði 3:1 fyrir Feyenoord í Hollandi, en gríska liðið hefur þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina. Hákon Arnar Haraldsson kom inn af bekknum á 88. mínútu þegar Lille tapaði 3:4 fyrir PAOK á heimavelli. Lille með sex stig.
Kolbeinn Birgir Finnsson var ónotaður varamaður hjá Utrecht sem laut í lægra haldi fyrir Freiburg, 0:2, og hefur liðið tapað öllum leikjum sínum í keppninni. Þá voru Daníel Tristan Guðjohnsen og Arnór Sigurðsson báðir fjarverandi þegar Malmö gerði 1:1 jafntefli við Dinamo Zagreb. Daníel tók út leikbann en Arnór glímir við meiðsli. Malmö hefur aðeins eitt stig eftir þrjár umferðir.