Linda Líf Boama hefur gengið til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Kristianstad frá Víkingi og skrifað undir þriggja ára samning.
Linda, sem er 24 ára, skoraði átta mörk í 20 leikjum fyrir Víking í Bestu deildinni á nýafstöðnu tímabili og var einn af lykilleikmönnum liðsins.
Nik Chamberlain, sem nýlega vann bæði deildar- og bikarmeistaratitil með Breiðabliki, tekur nú við Kristianstad og er Linda fyrsti leikmaðurinn sem hann fær til liðsins í nýju starfi.
Hjá Kristianstad eru þegar íslensku leikmennirnir Elísa Lana Sigurjónsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir. Liðið er í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.