Djurgården aftur á eftir Stefáni Inga

Djurgården hyggst gera nýja tilraun til að fá framherjann Stefán Inga.
Ljósmynd/Sandefjord

Sænska liðið Djurgården hyggst gera nýja tilraun til að fá framherjann Stefán Inga Sigurðarson frá Sandefjord í Noregi, samkvæmt Aftonbladet. Stefán hefur átt glæsilegt tímabil og er þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar með 13 mörk í 22 leikjum.

Samkvæmt fréttinni hefur Bosse Andersson, íþróttastjóri Djurgården, ferðast til Noregs til að fylgjast með Stefáni Inga. Félögin voru nálægt samkomulagi í sumar, en félagaskiptin fóru út um þúfur þegar danski sóknarmaðurinn August Priske ákvað að vera áfram hjá Djurgården.

Stefán er samningsbundinn Sandefjord til loka árs 2027 og sænska félagið þyrfti að greiða verulega fjárhæð til að tryggja sér þjónustu hans. Í sumar var talið að kaupverðið gæti numið um 20 milljónum sænskra króna, sem samsvarar rúmlega 260 milljónum íslenskra króna.

Djurgården er í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar tímabilið fer að klárast. Þar leikur einnig íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson.

Fyrri frétt

Benoný Breki á toppnum

Næsta frétt

Jón Dagur skoraði sitt fyrsta mark í Þýskalandi