Vigdís skoraði í stórsigri Anderlecht – Sædís lagði upp

Vigdís Lilja skoraði í stórsigri Anderlecht í forkeppni Evrópubikarsins.
Ljósmynd/Anderlecht

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði eitt marka belgíska liðsins Anderlecht þegar það lagði Aris frá Kýpur, 5:0, í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópubikarsins í dag.

Leikurinn fór fram í Kýpur þar sem Anderlecht sýndi yfirburði frá fyrstu mínútu. Vigdís Lilja lék allan leikinn í fremstu víglínu og kom belgíska liðinu í 3:0 á 33. mínútu.

Með sigrinum hefur Anderlecht tryggt sér afar sterka stöðu fyrir seinni leikinn í Belgíu eftir viku. Sigurvegari einvígsins fer áfram í aðra umferð keppninnar þar sem meðal annars Breiðablik verður í pottinum.

Sædís með stoðsendingu í sigri Vålerenga

Sædís Rún Heiðarsdóttir lagði upp síðasta markið þegar Vålerenga vann 3:0 sigur á ungverska liðinu Ferencváros í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í dag. Hún kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og nýtti mínúturnar vel. Arna Eiríksdóttir sat hins vegar á varamannabekknum hjá norska liðinu.

Diljá Ýr Zomers var í byrjunarliði Brann sem lagði Manchester United að velli, 1:0, í Noregi. Hún lék fyrri hálfleikinn en var tekin af velli í upphafi þess síðari. Hátt í sextán þúsund manns mættu á leikinn sem er aðsóknarmet í kvennafótbolta í Noregi.

Amanda Andradóttir var á varamannabekknum þegar Twente vann öruggan sigur á Katowice í Póllandi, 4:0. Markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir var einnig varamaður þegar Häcken gerði 1:1 jafntefli við Atlético Madríd í Svíþjóð.

Fyrri frétt

Breki spilaði með Esbjerg í bikarsigri

Næsta frétt

Hörður í viðræðum við lið á Kýpur