Hörður Björgvin Magnússon er kominn til Kýpur þar sem hann á í viðræðum við Anorthosis Famagusta. Fjölmiðlar á Kýpur og í Grikklandi greina frá því að um sé að ræða lokaviðræður sem gætu skilað samningi á allra næstu dögum.
Hörður, sem er 32 ára gamall, varð samningslaus í sumar eftir þriggja ára dvöl hjá Panathinaikos í Aþenu. Þar lék hann 38 leiki en meiðsli settu svip sinn á þann tíma. Á síðustu vikum hefur hann verið orðaður við nokkur lið í grísku úrvalsdeildinni, meðal annars Aris, PAOK og OFI.
Anorthosis, sem telst til stærstu og þekktustu liða á Kýpur og hefur reglulega tekið þátt í Evrópukeppnum, hafnaði í 7. sæti af 14 liðum í efstu deild á síðustu leiktíð. Liðið er aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar á nýju tímabili.