Fylgstu með okkur:

Fréttir

Fjölmiðlar í Rússlandi fjölluðu um staðhæfingar Hjörvars

Hjörvar Hafliðason fullyrti eftir sínum heimildarmanni, að Arnór Sigurðsson myndi fara til Napoli í sumar.

Mynd/Samsett

Hjörvar Hafliðason fullyrti í síðasta hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football, eftir sínum heimildarmanni, að Arnór Sigurðsson, leikmaður CSKA Moskvu í Rússlandi, myndi ganga í raðir ítalska félagsins Napoli í sumar.

„Ég fékk skilaboð á Facebook í gær frá einstaklingi sem gefur sig út fyrir að vita allt og ég treysti honum fyrir þessum upplýsingum. Þessi einstaklingur sagði að Arnór Sigurðsson væri farinn til Napoli og allt væri klappað og klárt, 100%,“ sagði Hjörvar í þætti sínum.

Hver fjölmiðillinn á fætur öðrum í Rússlandi fjallaði um þessar staðhæfingar Hjörvars, en samkvæmt heimildum Íslendingavaktarinnar eru þessar fregnir ekki á rökum reistar, að hér sé aðeins um sögusagnir að ræða. Þá staðfesti Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður Arnórs, í samtali við miðilinn SportBox í Rússlandi að ekkert væri til í þessu.

Arnór, sem er nýorðinn tvítugur, gerði fimm mörk í 21 leik fyrir CSKA Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni, ásamt því að skora tvö í Meist­ara­deild Evr­ópu. CSKA Moskva endaði í 4. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 51 stig og leikur á næstu leiktíð í Evrópudeildinni.

Nú þegar leiktíðinni er lokið get­ur Arnór farið að ein­beita sér að und­ir­bún­ingi ís­lenska landsliðsins fyrir leikina við Albaníu og Tyrkland á Laugardalsvelli, 8. og 11. júní.

Fréttir um Arnór í rússneskum miðlum. Textinn í greinunum hefur verið þýddur með Google. Mynd/Samsett

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir