Egill Orri Arnarsson var í byrjunarliði hjá U19 ára liði Midtjylland þegar liðið vann Buducnost frá Svartfjallalandi, 3:0, í Evrópukeppni unglingaliða í gær. Leikurinn fór fram á Ikast-leikvanginum í Danmörku.
Egill Orri lék fyrstu 72 mínútur leiksins og átti stoðsendingu að öðru marki Midtjylland. Eftir laglega sókn átti hann nákvæma sendingu fyrir markið þar sem samherji hans skoraði af stuttu færi á 64. mínútu. Stoðsendinguna má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.
Markvörðurinn Sigurður Jökull Ingvason var á varamannabekk Midtjylland í leiknum. Þetta var fyrri leikur liðanna í 2. umferð keppninnar, en liðin mætast á ný í Svartfjallalandi eftir tvær vikur.