Viktor und­ir smá­sjá stórliða

Útsendarar frá fjórum stórum liðum í Evrópu fylgdust með Viktori Bjarka.
Ljósmynd/FC Kaupmannahöfn/Samsett

Viktor Bjarki Daðason, framherji FC Kaupmannahafnar, var í eldlínunni í gær þegar liðið mætti Vejle í dönsku úrvalsdeildinni. Vejle hafði betur í leiknum, 2:0, en í stúkunni voru útsendarar frá nokkrum af þekktustu liðum Evrópu sem fylgdust grannt með gangi mála.

Samkvæmt frétt danska miðilsins Campo voru viðstaddir fulltrúar frá Borussia Dortmund og Borussia Mönchengladbach í Þýskalandi, Stade Rennais í Frakklandi og Real Sociedad á Spáni. Spænska félagið þekkir vel til hjá FC Kaupmannahöfn eftir að hafa fest kaup á Orra Steini Óskarssyni þaðan síðasta sumar í um 20 milljóna evra viðskiptum.

Ekki er ljóst hvaða leikmenn voru í brennidepli útsendaranna, en ekki þykir ólíklegt að áhugi þeirra hafi meðal annars beinst að Viktori Bjarka. Hann hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína með FC Kaupmannahöfn í haust, þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gamall.

Viktor Bjarki skoraði gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni í síðasta mánuði og ljóst er að íslenski framherjinn vekur nú athygli víðar en í Danmörku.

Fyrri frétt

Sannfærandi sigur hjá Herði og félögum

Næsta frétt

Albert í liði umferðarinnar á Ítalíu