Andri Lucas Guðjohnsen segir að hann sé reiðubúinn að takast á við nýja áskorun í ensku B-deildinni eftir að hafa gengið í raðir Blackburn Rovers frá belgíska liðinu Gent. Framherjinn, sem er 23 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning með möguleika á framlengingu.
Í samtali við RoversTV sagði Andri Lucas að hann hefði strax fundið að Blackburn Rovers væri réttur áfangastaður. „Ég er mjög ánægður, því þetta var félag sem var afar aðlaðandi og um leið og ég vissi af áhuganum þá var þetta staðurinn sem ég vildi fara til,“ sagði hann.
Andri Lucas telur að enski boltinn sé rétta skrefið fyrir hann á þessum tímapunkti á ferlinum. „Allir vita hvað félagið stendur fyrir, hvað enski boltinn er og hvað þessi deild hefur upp á að bjóða. Þetta er staður þar sem ég tel mig geta spilað vel en jafnframt mikil áskorun fyrir mig. Ég held að þetta sé rétta skrefið fyrir mig á þessum aldri og á þessum tímapunkti.“
Hann viðurkennir að enski fótboltinn hafi lengi heillað hann. „Allir knattspyrnumenn vilja á einhverjum tímapunkti reyna fyrir sér í Englandi. Þetta er góður staður að vera á, sama á hvaða aldri menn eru. Fyrir mig er þetta góð áskorun sem ég er tilbúinn að takast á við og ég er mjög spenntur.“
Að lokum var hann með skýr markmið. „Ég vona að ég geti skorað mörg mörk fyrir Blackburn Rovers og átt góðan tíma bæði innan vallar og utan.“