Kristian Nökkvi Hlynsson gerði fyrsta mark leiksins þegar Twente tapaði 3:2 á heimavelli gegn Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem hann mætir sínum gömlu félögum frá Amsterdam eftir að hann gekk í raðir Twente í sumar.
Markið kom á fjórðu mínútu leiksins þegar hornspyrna barst til Kristians sem skallaði knöttinn í netið af öryggi. Þetta var annað mark hans á tímabilinu, sem má sjá í myndbandi neðst í fréttinni.
Kristian lék með Ajax í fimm ár, þar sem hann lék fyrst með unglingaliði félagsins og varð síðar fastamaður í aðalliðinu áður en hann fór á lán til Sparta Rotterdam á síðustu leiktíð.
Twente er eftir tíu umferðir í 8. sæti deildarinnar með 14 stig.