Hrannar Snær Magnússon hefur yfirgefið Aftureldingu og gengið til liðs við norksa úrvalsdeildarliðið Kristiansund. Greint var frá skiptunum í gærkvöld.
Hrannar, sem er 23 ára kantmaður, var einn af lykilmönnum Aftureldingar á nýliðnu tímabili í Bestu deildinni. Hann skoraði tólf mörk í 26 leikjum í deildinni og bætti við marki í bikarkeppninni, en þrátt fyrir það féll liðið beint aftur niður í Lengjudeildina.
Frammistaða Hrannars vakti mikla athygli og var hann valinn besti leikmaður Aftureldingar á tímabilinu. Áhugi var á honum bæði frá íslenskum og erlendum liðum, en fyrir valinu varð Kristiansund sem leikur í norsku úrvalsdeildinni. Liðið tryggði sér sæti þar á nýliðnu tímabili með naumindum.
Hrannar er alinn upp á Norðurlandi og hefur áður leikið með Dalvík/Reyni/KF, KA, KF, KH og Selfossi, áður en hann gekk til liðs við Aftureldingu. Hann hefur gert samning við Kristiansund út tímabilið 2028.