„Hefði viljað skora þrennu“

Andri Lucas var maður leiksins en hefði þó viljað bæta við þriðja markinu.
Ljósmynd/Sky Sports

Andri Lucas Guðjohnsen var í lykilhlutverki þegar Blackburn Rovers vann 2:0-útisigur á Leicester City í ensku B-deildinni í dag.

Andri Lucas kom Blackburn yfir á 20. mínútu þegar boltinn barst til hans inn í teignum og hann skoraði af öryggi. Á 63. mínútu bætti hann við öðru marki með föstu skoti upp í þaknetið og tryggði liðinu sigurinn.

Í viðtali við Sky Sports eftir leikinn, þar sem hann var valinn besti maður vallarins, var Andri Lucas ánægður með frammistöðuna, þó hann hefði viljað bæta við þriðja markinu.

„Ég hefði viljað skora þrennu,“ sagði Andri Lucas. „Við getum þó verið ánægðir með þessi tvö mörk og að hafa haldið markinu hreinu. Þetta var einfaldlega frábær leikur hjá liðinu í heild, mikil barátta og ákefð og við vorum á tánum alveg fram á síðustu mínútu. Bara virkilega góður leikur.“

Andri Lucas hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum og virðist vera kominn í sitt besta form eftir rólega byrjun hjá Blackburn Rovers, sem er í 19. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 12 umferðir.

Hér að neðan má sjá mörkin tvö hjá Andra í leiknum, sem voru birt á vef Vísis.

Fyrri frétt

Mark Al­exöndru dugði skammt

Næsta frétt

Tómas Bent innsiglaði sigur Hearts – Myndband