Laglegt mark hjá Kolbeini – Myndband

Kolbeinn Þórðarson skoraði laglegt mark í Svíþjóð.
Ljósmynd/IFK Gautaborg

Kolbeinn Þórðarson skoraði eitt marka Gautaborgar þegar liðið vann öruggan 3:0-útisigur á Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Kolbeinn hefur verið í lykilhlutverki hjá Gautaborg á tímabilinu og átti stóran þátt í sigri liðsins. Hann fiskaði aukaspyrnu sem leiddi til fyrsta marksins og bætti síðan sjálfur við öðru markinu snemma í seinni hálfleik, þar sem hann sýndi mikla yfirvegun í teignum áður en hann renndi boltanum í netið. Markið má sjá hér að neðan.

Gautaborg er nú í 4. sæti deildarinnar með 47 stig eftir 28 umferðir og heldur áfram í baráttu um Evrópusæti, aðeins einu stigi á eftir GAIS. Halmstad situr í 11. sæti með 31 stig, en Gísli Eyjólfsson var ónotaður varamaður hjá liðinu.

Júlíus Magnússon og Ari Sigurpálsson voru báðir í byrjunarliði Elfsborg sem tapaði stórt fyrir Sirius, 4:0. Júlíus lék allan leikinn á meðan Ari lék fyrstu 75 mínúturnar. Elfsborg hefur misst dampinn undanfarnar vikur eftir gott gengi framan af ári og er í 8. sæti með 40 stig og á ekki möguleika á Evrópusæti.

Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson léku báðir allan leikinn fyrir Norrköping sem tapaði 2:1 fyrir sænska meistaraliðinu Mjällby. Norrköping hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð og er aðeins þremur stigum fyrir ofan fallumspilssæti þegar tvær umferðir eru eftir.

Daníel Leó Grétarsson Kristall Máni Ingason voru báðir í byrjunarliði Sønderjyske sem gerði markalaust jafntefli við Randers í dönsku úrvalsdeildinni. Daníel spilaði allan leikinn og átti mjög góðan leik en Kristall var tekinn af velli á 87. mínútu. Sønderjyske er í 8. sæti með 16 stig eftir þrettán umferðir.

Viktor Bjarki Daðason kom inn á sem varamaður á 84. mínútu hjá FC Kaupmannahöfn í markalausu jafntefli við Viborg. FC Kaupmannahöfn er í þriðja sæti með 22 stig. Rúnar Alex Rúnarsson var varamarkvörður liðsins.

Þá var Elías Rafn Ólafsson öruggur í marki Midtjylland sem vann sannfærandi 4:0-sigur á Fredericia. Elías hélt hreinu í þriðja deildarleik sínum á tímabilinu og liðið er nú taplaust í rúman mánuð, í öðru sæti deildarinnar með 28 stig, aðeins tveimur á eftir AGF.

Fyrri frétt

Albert skoraði í jafntefli Fiorentina – Myndband

Næsta frétt

Viðar Ari lagði upp í sigri – Brann áfram á sigurbraut