Viktor Bjarki lagði upp í frumraun sinni með FC Kaupmannahöfn – Myndband

Hinn ungi og efnilegi Viktor Bjarki gerði sér lítið fyrir og lagði upp mark í sínum fyrsta leik með FC Kaupmannahöfn.
Ljósmynd/X@CphSundays

Viktor Bjarki Daðason lék sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni með FC Kaupmannahöfn í dag þegar liðið heimsótti Silkeborg. Leikurinn endaði með 3:1-sigri heimamanna, en Viktor lét til sín taka þegar hann kom inn á í sínum fyrsta leik með aðalliðinu.

Viktor Bjarki hóf leikinn á varamannabekknum en var skipt inn á í upphafi seinni hálfleiks. Eftir rúman klukkutíma leik átti hann sendingu á Viktor Claesson sem skoraði eina mark Kaupmannahafnarliðsins í leiknum. Stoðsendinguna má sjá hér að neðan.

Viktor Bjarki, sem er aðeins 17 ára, gekk til liðs við FC Kaupmannahöfn frá uppeldisfélagi sínu Fram fyrir rúmu ári síðan og hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma. Hann skrifaði nýverið undir langtímasamning við danska stórliðið og er talinn einn efnilegasti leikmaður félagsins í sínum aldursflokki.

FC Kaupmannahöfn er í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig eftir 12 umferðir. Rúnar Alex Rúnarsson var varamarkvörður liðsins í leiknum í dag.

Nóel Atli Arnórsson lék allan leikinn með Álaborg í 2:2 jafntefli liðsins gegn B 93 í dönsku B-deildinni. Álaborg er í 5. sæti með 18 stig eftir 13 umferðir.

AB frá Kaupmannahöfn, undir stjórn Jóhannesar Karls Guðjónssonar, vann 2:1-útisigur gegn Næstved í dönsku C-deildinni. Adam Ingi Benediktsson varði markið hjá AB og Ægir Jarl Jónasson byrjaði leikinn á varamannabekknum. AB er á toppi deildarinnar með 27 stig eftir 12 umferðir.

Fyrri frétt

Bakslag hjá Orra Steini

Næsta frétt

Fátt um fína drætti