Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Al-Dhafra sem tapaði 3:1 fyrir Al-Wahda í 16-liða úrslitum forsetabikarsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.
Jóhann Berg virtist hafa jafnað metin í 1:1 á 40. mínútu leiksins með laglegri afgreiðslu í teignum, en eftir VAR-skoðun var markið dæmt af vegna rangstöðu, sem má sjá hér að neðan.
Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma, en Al-Wahda tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum í framlengingu. Jóhann Berg lék í 74 mínútur og átti fínan leik áður en hann var tekinn af velli. Þetta var sjötti leikur hans með Al-Dhafra á tímabilinu, en liðið er í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar þegar sex umferðir hafa verið leiknar.
Fyrr í dag lék Elías Már Ómarsson allan leikinn fyrir Meizhou Hakka sem tapaði 1:4 fyrir Yunnan Yukun í kínversku úrvalsdeildinni. Meizhou Hakka er í 14. sæti af 16 liðum, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.
Þá var Brynjar Ingi Bjarnason ekki í leikmannahópi Greuther Fürth sem tapaði 1:4 fyrir Karlsruher í þýsku B-deildinni. Greuther Fürth er í 14. sæti eftir tíu umferðir.