Dagur skoraði í tapi Orlando City – Myndband

Dagur Dan var á skotskónum með liði sínu Orlando City í Bandaríkjunum.
Ljósmynd/Orlando City

Dagur Dan Þórhallsson lét til sín taka í bandarísku MLS-deildinni í nótt þegar hann skoraði eina mark Orlando City í 1:2-tapi gegn Vancouver Whitecaps á heimavelli í Flórída.

Dagur Dan kom heimamönnum yfir með marki á 24. mínútu eftir vel útfærða sókn, en Vancouver náði að jafna metin undir lok leiks og skoraði sigurmark í uppbótartíma með marki frá þýska leikmanninum Thomas Müller.

Orlando situr áfram í sjöunda sæti Austurdeildarinnar þegar ein umferð er eftir. Liðið þarf sigur í lokaumferðinni gegn Toronto FC til að tryggja sér beint sæti í úrslitakeppninni, en keppinautar þess eru skammt á eftir í stigum.

Þetta var þriðja mark Dags á tímabilinu, en hann hefur verið fastamaður í liði Orlando City og leikið í 30 af 33 deildarleikjum félagsins í ár. Markið hans í nótt má sjá hér að neðan.

Fyrri frétt

Bayern München hafði betur í toppslagnum

Næsta frétt

Sandra skoraði sigurmarkið fyrir Köln