Arnór einn vænlegasti leikmaður Evrópu

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson er á lista UEFA yfir 50 efnilegustu leikmenn Evrópu sem gætu slegið í gegn á árinu.
ÍV/Getty

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson og leikmaður CSKA Moskvu í Rússlandi er á lista UEFA.com yfir 50 efnilegustu leikmenn Evrópu sem gætu slegið í gegn á árinu.

Arnór hefur átt frábæra byrjun hjá CSKA Moskvu og hefur heillað nokkur stór félög með frammistöðum sínum. Napoli frá Ítalíu og Dortmund frá Þýskalandi hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir næstu áfangastaðir fyrir Arnór.

Arnór hefur skorað tvö mörk í 20 leikjum með CSKA Moskvu á yfirstandandi leiktíð, en á þeirri síðustu skoraði Arnór fimm mörk í rússnesku úrvalsdeildinni og tvö í Meist­ara­deild Evr­ópu, gegn Roma og Real Madrid.

Á vef UEFA er sagt um Arnór: „Yngsti Íslendingurinn í sögunni til þess að spila í Meist­ara­deild Evr­ópu og miðjumaðurinn skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands í október síðastliðnum.“

Á meðal annarra leik­manna sem eru á list­an­um má nefna þá Ansu Fati (Barcelona), Mason Greenwood (Manchester United), Reece James (Chelsea), Dejan Kulusevski (Atalanta), Gabriel Martinelli (Arsenal) og Rafael Leão (AC Milan).

Fyrri frétt

Launahæstu knattspyrnumenn Íslands – Gylfi í sérflokki

Næsta frétt

Ólafur ósáttur með sænskan blaðamann: „Hann vildi setja þetta fram í æsifréttastíl”