Samkvæmt frétt breska dagblaðsins The Times gegnir Grétar Rafn Steinsson, tæknilegur ráðgjafi 49ers Enterprises, lykilhlutverki í leit Rangers að nýjum þjálfara eftir að liðið leysti Russell Martin frá störfum. 49ers Enterprises er meðal eigenda Rangers og hefur Grétar Rafn á undanförnum misserum starfað náið með stjórn félagsins. Vísir.is vakti athygli á þessu.
Í umfjöllun The Times segir að Grétar Rafn hafi fengið umboð eigendanna til að leiða leitina að nýjum þjálfara. Yfirstjórnarmennirnir Kevin Thelwell og Patrick Stewart, sem hafa verið gagnrýndir fyrir ákvarðanir sínar, gegna minna hlutverki í ferlinu en áður.
Leitin beinist nú að Steven Gerrard, sem fundaði í dag með forráðamönnum Rangers í London. Gerrard, sem varð meistari með Rangers árið 2021, er sagður tilbúinn að taka við liðinu á ný, að því er fram kemur í frétt The Times.